22 Júlí 2009 12:00
Nokkur innbrot voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Brotist var inn í tvo bíla í Elliðaárdal og einn í Hafnarfirði en vegna þessa vill lögreglan ítreka að verðmæti séu ekki höfð í augsýn í ökutækjum. Innbrotsþjófar voru líka á kreiki í miðborginni og stálu tölvu og bakpoka úr kjallaraíbúð. Gamall gítar og útidyramotta hurfu frá leikskóla í vesturbæ borgarinnar og í austurborginni var veiðigræjum stolið úr geymslu verslunar- og þjónustuhúss. Tölva, myndavél og áfengi var tekið úr íbúð í Kópavogi og hljómflutningstækjum var stolið úr húsi í Mosfellsbæ. Verkfærataska var tekin ófrjálsri hendi í miðborginni og í sama hverfi var bíl stolið síðdegis. Bíllinn fannst óskemmdur nokkru síðar en þjófurinn er hinsvegar ófundinn.