3 Desember 2024 12:49

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar eigendur og umráðamenn ökutækja við því að skilja verðmæti eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Sömuleiðis er rétt að benda á mikilvægi þess að skilja bíla frekar eftir á upplýstum bílastæðum, ef þess er nokkur kostur. Þjófum finnst nefnilega fátt betra en að athafna sig í myrkrinu þar sem ekki sést til þeirra.

Reglulega er tilkynnt um innbrot í bíla í umdæminu, en þjófum er ekkert heilagt og þeir stela jafnvel jólagjöfum ef því er að skipta enda er jólagjafavertíðin á fullu þessa dagana. Því er full ástæða til að ítreka þessi varnaðarorð. Að síðustu er minnt á mikilvægi þess að skilja bíla ekki eftir ólæsta og þaðan af síður í gangi á meðan skroppið er frá.