27 Október 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík hefur veitt því sérstaka eftirtekt að mikið skortir á að vegfarendur beri endurskinsmerki. Þessu verður að snúa við því notagildi endurskinsmerkja er óumdeilt. Því til staðfestingar má nefna rannsóknir sem hafa sýnt fram á að vegfarendur sem nota endurskinsmerki sjást miklu fyrr. Í einu af þessum dæmum segir frá þremur börnum sem eru saman á gangi í svarta myrkri. Eitt er dökkklætt og annað ljósklætt en bæði eru án endurskinsmerkja. Ökumaður bíls sem kemur aðvífandi sér fyrra barnið í 26 metra fjarlægð en það síðara í 38 metra fjarlægð. Þriðja barnið er hins vegar með endurskinsmerki og það sér bílstjórinn í allt að 136 metra fjarlægð, eða meira en fimm sinnum fyrr en dökkklædda barnið.
Þetta einfalda dæmi sýnir, svo ekki verður um villst, mikilvægi þess að bera endurskinsmerki. Notkun þeirra getur skipt sköpum og fólk á öllum aldri ætti að ávallt að bera endurskinsmerki eftir að skyggja tekur. Í þessu sambandi vill lögreglan líka sérstaklega nefna svokallaða skokkara en margir þeirra ættu nú að gera bragabót á þessu. Seint verður lögð nógu mikil áherslu á notkun endurskinsmerkja í skammdeginu.
Allir ættu að hafa ráð á því að fjárfesta í endurskinsmerkjum en þau má m.a. fá í lyfjaverslunum og jafnvel verslunum sem selja útivistarvörur. Gott ráð er að hafa endurskinsmerkin á ermum á úlpum. Með því móti geta bílljósin lýst á þau í sem mestri fjarlægð.