24 Nóvember 2012 12:00
Síðdegis í gær framkvæmdi lögreglan á Vestfjörðum húsleit á heimili tveggja einstaklinga á Ísafirði. Grunur hafði vaknað um að í íbúðinni væri meðhöndluð fíkniefni.
Við húsleit fundust kannabisfræ, áhöld sem virðast hafa verið notuð til kannabisneyslu og ætluð ólögleg hormónalyf sem talin eru notuð í tengslum við líkamsrækt.
Einstaklingarnir tveir sem búa í umræddri íbúð voru handteknir og vistaðir í fangageymslu meðan rannsókn stóð yfir. Þeim var sleppt eftir yfirheyrslur í gærkveldi. Aðilar þessir hafa báðir komið áður við sögu lögreglu vegna fíkniefnabrota. Málið telst upplýst.
Lögreglan vill hvetja alla þá sem telja sig búa yfir upplýsingum um fíkniefnameðhöndlun að hafa samband í síma 450 3730 eða upplýsingasíma lögreglu og tollgæslu, sem er 800 5005. Fullri nafnleynd er heitið hverjum þeim sem gefur slíkar upplýsingar.