10 Júlí 2003 12:00
Taflfélagið Hrókurinn afhenti í gær Böðvari Bragasyni, lögreglustjóra, töfl, skákklukkur og kennslubók í skák. Hrafn Jökulsson fór fyrir hópnum ásamt Reginu Pokorna, stórmeistara og tóku þau eina skák á skrifstofu lögreglustjóra til að sýna lögreglustjóra og Herði Jóhannessyni, yfirlögregluþjóni, réttu handtökin. Eftir snarpa viðureign játaði Hrafn sig sigraðan.
Töflin eru í setustofu lögreglumanna á lögreglustöðinni og þar geta lögreglumenn gripið í þau þegar færi gefst og þannig bæði hvílt sig og eflt andann í senn. Líklegt er að Hrókurinn muni koma aftur í heimsókn í haust og slá upp skákmóti á lögreglustöðinni ef áhugi starfsmanna verður fyrir hendi.