22 Ágúst 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ítrekar þau tilmæli sín til ökumanna að þeir sýni sérstaka varúð í nágrenni leik- og grunnskóla. Við umferðareftirlit í gær kom glögglega í ljós að enn ber á hraðakstri við skólana. Sem fyrr er minnt á þá staðreynd að börn gleyma sér gjarnan og geta átt það til að hlaupa fyrirvaralaust í veg fyrir umferð.
Brot 96 ökumanna voru mynduð á Fjallkonuvegi við Foldaskóla í Grafarvogi á tæplega einni klukkustund síðdegis í gær. Meðalhraði hinna brotlegu var rúmlega 44 km/klst en sá sem hraðast ók mældist á 60 km hraða. Þá voru brot 57 ökumanna mynduð í Norðurfelli í Breiðholti á einni klukkustund fyrir hádegi í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið austur Norðurfell að Gyðufelli. Þarna er aðgengi að Fellaskóla og því margir ungir vegfarendur á ferli. Meðalhraði hinna brotlegu var liðlega 50 km/klst. Fimm ökumenn óku á yfir 60 en sá sem hraðast ók var á 70 km hraða.