27 September 2024 14:44

Lögreglumenn á Vesturlandi mættu bifreið sem ekið var á 145 km/klst. þar sem þeir voru við löggæslueftirlit í gærkvöldi á Vesturlandsvegi við Hafnarfjall.

Þeir veittu bifreiðinni strax eftirför með blá ljós tendruð en ökumaðurinn stöðvaði ekki för sína þrátt fyrir að honum væri gefin stöðvunarmerki heldur jók ferðina og reyndi að stinga lögregluna af.

Ökumaðurinn mætir síðan öðrum lögreglubíll sem var þar einnig á ferð um Vesturlandsveg þar sem bifreiðinni er ekið á ofsahraða frá fyrri lögreglubifreiðinni.  Hann var þá mældur á 188 km/klst.

Fjarskiptamiðstöð lögreglu var gert viðvart um eftirförina og sjúkrabifreið ræst út frá Borgarnesi til öryggis.

Ökumaðurinn ók áfram Vesturlandsveg inn á Borgarfjarðarbraut en eftirförinni lauk á Hvítárvallarvegi þar sem ökumaður stöðvaði bifreiðina og gafst upp. Hann var handtekinn á staðnum.

Ökumaðurinn og farþegar hans eru 17 og 18 ára gamlir og því var haft var samband við foreldra og barnavernd gert viðvart.

Ökumaðurinn var fluttur á lögreglustöðina á Akranesi þar sem hann var sviptur ökuréttindum á staðnum og á hann von á hárri sekt að auki.