25 Október 2006 12:00
Að venju hélt lögreglan í Reykjavík úti öflugu umferðareftirliti í gær en umferðin gekk almennt vel fyrir sig. Tilkynnt var um fimmtán umferðaróhöpp en engin teljandi slys urðu á fólki. Í þremur tilfellum hurfu tjónvaldar af vettvangi en það er mjög miður að fólk skuli haga sér með þeim hætti.
Enn ber á hraðakstri í íbúðargötum og nokkrir ökumenn voru teknir fyrir að aka fullgeyst í Breiðholtinu. M.a. var fertug kona tekin í Arnarbakka en hún ók þar á tvöföldum leyfilegum hámarkshraða og rúmlega það. Fyrir vikið á hún yfir höfði sér sviptingu ökuleyfis til tveggja mánaða auk sektar. Sama kona var staðin að hraðakstri annars staðar í borginni fyrr í mánuðinum og því ljóst að hjá henni verða nokkur fjárútlát vegna þessa glannaaksturs.
Myndavélabíll lögreglunnar var líka á ferðinni á mörgum stöðum í umdæminu í gær. T.d. voru ljósmynduð brot rúmlega áttatíu ökumanna á Vesturlandsvegi við Klébergsskóla. Þar er 70 km hámarkshraði en meðalhraði hinna brotlegu var tæplega 90 km/klst.