6 Júní 2011 12:00
Brot 7 ökumanna voru mynduð í Arnarsmára í Kópavogi í dag. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Arnarsmára í vesturátt, að Bollasmára. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 8 ökutæki (þar af tvö reiðhjól) þessa akstursleið og því óku næstum allir, eða 88%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 53 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 65.
Þess má geta að lögreglan hefur verið við hraðamælingar á þessum stað nokkrum sinnum áður og þá hefur brotahlutfallið jafnan verið hátt, eða 54-56% (2009 og 2010) en meðalhraði hinna brotlegu hefur verið á bilinu 48-53 km/klst. Við fyrri hraðamælingar hefur sömuleiðis verið frekar lítil umferð um götuna.