13 Nóvember 2013 12:00
Vegna vegaframkvæmda og ógætilegs aksturs ökumanna um merkt vinnusvæði á Kjalarnesi við Móa í síðustu viku, voru fastar hraðamyndavélar á svæðinu virkjaðar og mynda nú þá ökumenn er aka hraðar en leyfilegur hámarkshraði segir til um meðan framkvæmdir standa yfir. Leyfilegur hámarkshraði er 50 km/klst.
Vélarnar voru virkjaðar á mánudag og sýna því miður að ökumenn virða ekki nægjanlega hraðamerkingar á vinnusvæðum né heldur rétt starfsmanna á svæðinu til öryggis. Tölur sýna að á hverri mínútu að meðaltali er ekið of hratt í gegnum vinnusvæðið.
Lögreglan vill því nota tækifærið til að hvetja ökumenn til að gæta eigin öryggis og annarra með því að fylgja þeim merkingum sem við vinnusvæði eru og ekki síður ítreka að þeir ökumenn sem ekki virða gildandi hámarkshraða á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi mega eiga von á sektum.