30 September 2009 12:00
Brot 21 ökumanns var myndað á Neshaga í Reykjavík í gær. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Neshaga í vesturátt, við Melaskóla. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 76 ökutæki þessa akstursleið og því ók meira en fjórðungur ökumanna, eða 28%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 44 km/klst en þarna er 30 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 65. Þar var um mikinn glæfraakstur að ræða enda mjög mikið af börnum á svæðinu, þ.e. á gangstétt við akbrautina. Full ástæða er því til að hvetja ökumenn enn og aftur til að sýna varúð. Börn gleyma sér gjarnan og geta átt það til að hlaupa fyrirvaralaust í veg fyrir umferð.
Vöktun lögreglunnar á Neshaga, en við götuna er fyrrnefndur Melaskóla, er liður í umferðareftirliti hennar við grunnskóla á höfuðborgarsvæðinu.