5 Júní 2023 15:31
Um þessar mundir eru liðin sextíu ár frá því að hornsteinn var lagður að lögreglustöðinni á Hverfisgötu í Reykjavík, en það gerði Ásgeir Ásgeirsson, forseti Íslands, laugardaginn 1. júní 1963. Bygging hússins hófst í árslok 1961, en lögreglustöðin var tekin í notkun í áföngum eftir því sem framkvæmdum miðaði áfram. Umferðardeildin, sem þá var í bragga við Snorrabraut, flutti í kjallara nýju lögreglustöðvarinnar árið 1966 og í framhaldinu fékk Lögregluskólinn líka inni í húsinu. Fangageymslan var síðan tekin í notkun í ársbyrjun 1970 og 4. nóvember 1972 flutti lögreglan loks alla sína starfsemi í húsið.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá þessu skeiði, m.a. þegar hornsteinninn var lagður, og sýna þær glögglega hvernig þá var umhorfs á Hlemmi. Einnig má sjá líkan af lögreglustöðinni, en bygginguna teiknaði Gísli Halldórsson. Þetta voru mjög stórhuga áform þótt ekki gengu þau öll eftir.