15 Ágúst 2017 11:47
Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu fyrir utan töluverðan eril í kringum flokkun og afhendingu óskilamuna eftir Þjóðhátíðina. Minna var um óskilamuni í ár en undanfarin ár og hefur lögreglan enga skýringu á því.
Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og engin teljanleg vandræði í kringum öldurhúsin. Töluverður fjöldi fólks var samankomin á Básaskersbryggju á laugardagskvöldið við komu Herjólfs en með skipinu voru nýkrýndir Bikarmeistara ÍBV í knattspyrnu sl. Fóru hátíðarhöld vel fram en einhverjir fögnuðu titlinum fram eftir nóttu. Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar ÍBV til hamingju með titilinn.
Tvö slys voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku. Í öðru tilvikinu hafði barn slasast á gæsluvellinum v/Miðstræti þegar róla sem barnið var að leika sér í slitnaði. Ekki var um alvarlega áverka að ræða. Í hinu tilvikinu hafði barn dottið á reiðhjóli og fann til eymsla í hné eftir fallið. Í báðum tilvikum voru börnin flutt á Heilbrigðisstofnun Suðurlands.