4 Júlí 2017 14:35
Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku enda fjöldi fólks í bænum vegna Orkumótsins í knattspyrnu. Nóg var að gera í að sinna umferðarmálum enda fjöldi bifreiða á götum bæjarins. Þá var eitthvað um að lögreglan aðstoðaði fólk sem hafði slasast við hinar ýmsu aðstæður.
Eftir Orkumótið fékk lögregla upplýsingar um að börn hefðu verið sett í farangursrými bifreiða og ferjuð þannig á milli staða. Slíkt athæfi er að sjálfsögðu algerlega óboðlegt og stórhættulegt og eflaust ekkert foreldri sem myndi samþykkja slíka meðferð á sínu barni.
Um liðna helgi var lögreglan kölluð til vegna ágreinings á milli dyravarða og gests við eitt af öldurhúsum bæjarins. Þarna höfðu orðið átök á milli dyravarða og gestsins sem endaði með því að gesturinn óskaði eftir aðstoð lögreglu.
Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um ölvun við akstur en alls liggja fyrir 20 mál er varða brot á umferðarlögum. Flestar kærurnar eru vegna ólöglegarar lagninga ökutækja og vanrækslu á notkun öryggisbeltis við akstur.
Lögreglan vill í tilefni af Goslokahátíðar um komandi helgi minna foreldra og forráðamenn barna á útivistareglurnar og bendir á að börn og ungmenni eiga ekkert erindi á skemmtanir þar sem áfengi er haft um hönd.
Lögreglan beinir því til ökumanna að vegna fjölgunar barna að leik á Stakkagerðistúni, sérstaklega vegna tilkomu hoppudýnunnar, að fara varlega. Jafnframt er rétt að benda ökumönnum á það að Hilmisgata, frá Kirkjuvegi, og Bárustígur að Vesturvegi eru vistgötur og því hámarkshraði einungis 15 km/klst. Lögreglan mun á næstunni verða með sérstakt eftirlit á þessu svæði með það í huga að auka öryggi þeirra sem þarna fara um gangandi.
Hér að neðan er ákvæði um vistgötur úr umferðarlögunum:
Vistgötur.
7. gr. Ákvæði greinar þessarar gilda um umferð á svæði, sem afmarkað er með sérstökum merkjum, sem tákna vistgötu.
Heimilt er að dveljast og vera að leik á vistgötu. Þar ber að aka mjög hægt, að jafnaði eigi hraðar en 15 km á klst. Ef gangandi vegfarandi er nærri má eigi aka hraðar en á venjulegum gönguhraða.
Ökumaður skal sýna gangandi vegfaranda sérstaka tillitssemi og víkja fyrir honum. Gangandi vegfarandi má eigi hindra för ökutækis að óþörfu.
Eigi má leggja ökutækjum nema á sérstaklega merktum stæðum. Ákvæði þetta gildir eigi um reiðhjól.