7 September 2015 13:50
Þrír ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum, tveir á Skutulsfjarðarbraut og einn í Bolungarvíkurgöngum, eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu, það var á Innstrandavegi við Stóru Hvalsá, þar hafnaði bílaleigubíll út fyrir veg og valt, ökumaður einn á ferð og slapp án meiðsla. Bifreiðin óökuhæf og flutt af vettvangi með krana.
Þriðjudaginn 1. sept., kom tilkynning um að brotist hafi verið inn í Ósvör, sjóminjasafnið í Bolungarvík. Innbrotið átti sér stað í hádeginu þann dag. Þeir sem gætu gefið einhverjar upplýsingar varðandi málið, eða séð til mannaferða við Ósvör í hádeginu þann dag, hafi samband í síma 444-0400.
Þá var ekið utan í skáp í mætingarplássi í Vestfjarðargöngunum. Talsverðar skemmdir á skápnum, en ekki vitað um tjónvald.
Rétt fyrir miðnætti aðfaranótt laugardags kom tilkynning frá Landhelgisgæslunni um vélvana línuskip, Grundfirðing SH, þá staddur ca. 4 sjómílur suður af Látrabjargi. Nær liggjandi skip voru beðin að fara á staðinn til aðstoðar, þar sem álands vindur var. Þá voru björgunarskip Landsbjargar á Rifi og Patreksfirði einnig kölluð út ásamt þyrlu gæslunnar. Milli 30 og 40 mín., eftir aðstoðarbeiðnin barst var togarinn Ásbjörn RE kominn að Grundfirðingi og nokkuð greiðlega gekk að koma taug milli skipa og var því hættuástandi aflýst . Í framhaldi voru björgunarskipin afturkölluð.