4 Apríl 2022 09:49
41 ökumaður var kærður fyrir að aka of hratt í umdæminu í liðinni viku. Af þeim voru 18 stöðvaðir við Vík og Kirkjubæjarklaustur og þar er jafnframt hraðinn meiri að jafnaði. Aðrir 18 voru kærðir ía Árnes- og Rangárvallasýslunum gömlu og Hafnarmenn stöðvuðu 5. 8 þessara ökumanna reyndust á yfir 130 km/klst hraða og einn þeirra á meira en 150 km/klst hraða. Skiptin eru nokkuð jöfn milli erlendra ferðamanna og Íslendinga.
Ökumaður sem ók út af Þorlákshafnarvegi þann 28. mars er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann vistaður í fangageymslu þar til af honum rann og þá yfirheyrður um sakarefnið. Laus að því loknu en rannsókn málsins heldur áfram.
Annar ökumaður var stöðvaður á Biskupstungnabraut sama dag og svaraði hann jákvætt á nær öllum tegundum efna sem prófa má fyrir í munnvatnsprófi. Laus að töku blóðsýnis loknu en málið bíður niðurstöðu rannsókna á því.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að nota farsíma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.
Drengur, á hlaupahjóli, slasaðist þegar hann varð fyrir bifreið á Gatnamótum Suðurengis og Tryggvagötu á Selfossi þann 31. mars. Fluttur til aðhlynningar á heilbrigðisstofnun. Önnur 10 umferðarslys tilkynnt í vikunni öll án alvarlegra meiðsla.
Maður rann til og féll fram af þaki útihúss í Mýrdal þar sem hann var við vinnu. Fallið um 3 metrar. Hann fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Karlmaður sem vísað hafði verið út af veitingstað í Hveragerði var handtekinn óviðræðuhæfur sökum vímuástands og færður í fangaklefa. Við afskipti lögreglu reyndi hann að koma frá sér kannabisefnum sem hann var með á sér og þegar nánar var að gáð reyndist hann einnig hafa meðferðis töluvert magn mismunandi fíkniefna í neyslupakningum, sum þeirra í formi súkkulaðimola og önnur í formi hlaupbangsa. Það haldlagt og einnig reiðufé sem hann var með á sér. Yfirheyrður daginn eftir og þá leitað á heimili hans þar sem bæði fundust meira af fíkniefnum og reiðufé. Maðurinn kannaðist við að hafa verið við dreifingu fíkniefna og fjármunirnir væru afrakstur þeirrar iðju. Hann laus að skýrslutöku lokinni en rannsókn heldur áfram.
Stýrihópur um aðgerðir til að ná flaki flugvélarinnar TF ABB áformar að hittast í vikunni og undirbúa vinnu við björgun. Enn er ís á reki vatninu og hefur safnast saman sunnan til á því en vonir standa til að unnt verði að fara í verkefnið um miðjan apríl.