21 September 2015 08:55
Mjög mikið álag hefur verið á lögreglumönnum í Vík, Kirkjubæjarklaustri og í Höfn í liðinni viku vegna alvarlegra slysa. Hjá lögreglunni á Suðurlandi voru skráð 17 slys og umferðaóhöpp á þessu tímabili.
Tilkynnt var um innbrot í tvo sumarbústaði í Úthlíð. Skemmdir voru unnar á húsunum við það að brjótast inn í þau. Í öðru húsinu var talsvert blóð svo leiða má líkur að því að innbrotsþjófurinn hafi skaðað sig. Einskis var saknað úr húsunum.
Maður kom í lögreglustöðina á Selfossi til að kæra mann fyrir að hafa falsað nafn hans á afsal fyrir sölu á bíl. Málið er í rannsókn.
Ökumaður var kærður fyrir akstur bifreiðar sviptur ökuréttindum. Sautján ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur.
Eins og áður er komið fram voru fimm erlendir ferðamenn fluttir á slysadeild Landspítalans í Fossvogi eftir bílveltu á Mýrdalssandi síðastliðinn þriðjudag. Rannsókn leiddi í ljós að af þeim fimm sem voru í bifreiðinni var aðeins bílstjórinn með bílbelti. Þetta var þrátt fyrir að í bifreiðinni voru áberandi bendingar um að á Íslandi er beltaskylda og upplýsingar um ökuhraða og annað sem máli skiptir í umferðinni. Á leið sinni frá slysstað urðu lögreglumenn vitni að gáleysislegum akstri ökumanns jeppabifreiðar á Sólheimasandi. Ökumaður tók framúr við vafasamar aðstæður og í eitt skipti mátti litlu muna að hann lenti framan á bifreið sem kom á móti. Lögreglumennirnir hófu eftirför og stöðvuðu ökumann jeppans. Í jeppanum voru sex erlendir ferðamenn og enginn þeirra í bílbelti. Er nema von að illa fari.