10 Ágúst 2015 10:55
Fimm ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum í liðinni viku.
Þá voru þrjú minniháttar umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglu í vikunni.
Um kl. 16:00 föstudaginn 7. ágúst kom tilkynning til lögreglu um að tveir írskir ferðamenn væru í vandræðum í fjallinu utan til í Patreksfirði, þeir hefðu ætlað að ganga frá Patreksfirði fyrir Tálkna og inn í Tálknafjörð, í tilkynningu kom fram að þeir væru staddir ofarlega í Hlíðardal, sem er skammt utan við bæinn. Í framhaldi voru björgunarsveitir á Patreksfirði og Tálknafirði kallaðar til aðstoðar. Þá var björgunarskipið Vörður II kallaður út til að sigla út með firðinum til aðstoðar við að staðsetja ferðamennina, fljótlega kom í ljós eins og áður er getið að þeir voru mjög ofarlega í Hlíðardalnum, þar nánast í sjálfheldu og mjög þreyttir. Björgunarsveitin Blakkur fór á vettvang með sigbúnað og voru ferðalangarnir aðstoðaðir upp á brún og fylgt til byggða.
Skemmtanahald í umdæminu gekk vel og án teljandi afskipta lögreglu.