23 September 2019 10:30
Karlmaður sem fannst látinn við Sprengisandsleið norðan Vatnsfells s.l. föstudag var tékkneskur, fæddur 1975. Hann var einn á ferð á hjóli sínu og var aðstandendum hans tilkynnt um málið með aðstoð ræðismanns Tékklands sama dag. Krufning er áætluð á morgun en eins og fram hefur komið eru ekki vísendingar um að saknæmt athæfi hafi átt sér stað. Maðurinn hafði farið á hjóli sínu víða um Vestur- og Norðurland ásamt þekktum hálendisleiðum og var á leið úr Öskju um Sprengisand í Landmannalaugar.
Tvö önnur andlát voru tilkynnt til lögreglunnar í vikunni og eru þau rannsökuð eins og skylt er þegar andlát verður utan sjúkrastofnunar. Þá fer að jafnaði fram krufning á líki hins látna nema unnt sé að ákvarða dánarorsök með óyggjandi hætti af ummerkjum á vettvangi og sjúkrasaga viðkomandi sé þess eðlis að krufning sé óþörf. Á þriðja tug krufninga hafa verið gerðar það sem af er ári skv. beiðni embættisins. Að jafnaði eru það aðstandendur sem gefa leyfi sitt fyrir því að krufning fari fram. Mörgum finnst, við fyrstu skoðun, óþægileg tilhugsun að það þurfi að fara fram krufning en hinsvegar reynist mörgum mun betra að fá þær upplýsingar sem krufningin gefur þar sem að slíkt auðveldar úrvinnslu málsins fyrir aðstandendur því þá er vitað með vissu hvað hafi í raun gerst.
730 bókanir er að finna í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi frá því s.l. mánudag. Af þeim eru 54 hraðakstrar, flestir á svæðinu í kring um Hvolsvöll og austur fyrir Vík eða 33. Samanlagðar álagðar sektir vegna þessara brota nema um 4 milljónum króna. Flestir greiða sektir sínar á vettvangi eða innan 30 daga frá broti og fá þar með 25% afslátt af sektinni.
3 ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið bifreðum sínum ölvaðir í liðinni viku og tveir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum ávana- eða fíkniefna. Afskipti af öðrum þeirra leiddi til þess að lögregla fann umfangsmikla ræktun á kannabisplöndum í húsnæði á hans vegum og kannaðist maðurinn við að standa að þeirri ræktun ásamt því að hafa tengt framhjá rafmagnsmæli til að ná sér í rafmagn til ræktunarinnar.
Ökumanni fólksbifreiðar sem ók frá Krambúðinni við Tryggvagötu áleiðis norður og gegn rauðu ljósi við Engjaveg um miðnæturbil að kvöldi 21. September, var gerð sekt, annarsvegar fyrir að aka gegn rauðu ljósi og hinsvegar vegna hávaða og ónæðis af „reykspóli“ Ökumaðurinn, tvítugur að aldri, greiddi sekt sína á staðnum, krónur 70.000 –
Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir að tala í síma við akstur bifreiða sinna án þess að nota handfrjálsan búnað. Einn var kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti við aksturinn.
Bruni varð í yfirbyggðri spennistöð á Höfn um miðjan dag í gær. Töluvert tjón er á tengibúnaði en húsið var mannlaust og ekki urðu slys á fólki.