29 Júlí 2022 09:49
Talsverður fjöldi fólks er nú kominn til Vestmannaeyja og búist er við enn fleiri gestum í dag. Í gærkvöldi fór hið árlega húkkaraball fram í hæglætis veðri. Töluverður fjöldi sótti ballið. Einn var handtekinn og vistaður í fangageymslu eftir að hafa veist að lögreglumönnum er þeir hugðust hafa afskipti af honum. Tvö minniháttar fíkniefnamál komu upp og einn gisti fangageymslu að eigin ósk. Að öðru leyti var nóttin fremur róleg hjá lögreglu.
Þjóðhátíð verður sem kunnugt er sett í Herjólfsdal eftir hádegið í dag, föstudag, og mun dagskráin standa fram á mánudag. Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar Eyjamönnum og öllum gestum þeirra gleðilegrar þjóðhátíðar. Verum vakandi og góða skemmtun.