28 Júní 2021 11:19
Liðin helgi fór almennt vel fram í umdæminu okkar og þar með talin Humarhátíð á Höfn og Jónsmessuhátíð á Eyrarbakka. Fjölmennt var á flestum tjaldsvæðum enda veður með ágætum. Ljóst er að ferðahugur er kominn í marga og þannig var umferð á Suðurlandsvegi um Hellisheiði um 14.500 bílar á laugardag og sunnudag. Rúmlega 6000 bílar fóru um Suðurlandsveg austan Hellu sömu daga og um Mýrdalssand fóru um 2200 bílar s.l. sunnudag. Þann dag fóru um 1200 bílar um teljara vegagerðarinnar á Suðurlandsvegi við Jökulsárlón. Nánar um umferðartölur er hægt að lesa sér til á teljurum vegagerðarinnar á heimasíðu hennar. Á þeirri síðu er líka að finna umferðargreina sem annarsvegar mæla ökuhraða bifreiða á tilteknum mælipunktum og hinsvegar mæla þeir bil milli bíla. Þessir umferðargreinar Umferðargreinar | Vegagerðin (vegagerdin.is) ásamt skráningu slysstaða eru meðal þess sem lögreglumenn nota til að ákvarða hvar lögð er áhersla á hraðamælingar og almennt eftirlit á þjóðvegunum.
613 mál/verkefni voru skráð við embættið í liðinni viku. Af þeim voru 57 hraðakstursbrot og ljóst að einhverjir hafa þurft að skera niður í gæðum sumarleyfisferðarinnar vegna þeirra útgjalda sem hraðakstursbrotið hafði í för með sér. Það er nefnilega hægt að gera margt skemmtilegt fyrir 50 til 80 þúsund krónur sem eru algengustu sektartölur vikunnar en þó sjást tölur sem nálgast 200 þúsundin. Spörum þarna og drögum um leið úr slysahættu. Gleymum því ekki að þegar bíl er ekið á 90 km/klst hraða fer hann um 25 m/sek og það er full ástæða til að hafa athyglina á veginum við það tilefni. Þær upplýsingar hefur sá sem var kærður fyrir að nota farsíma sinn án handfrjáls búnaðar í vikunni væntanlega fengið ásamt reikning upp á 40 þúsund krónur.
2 ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru ölvaðir við akstur bifreiða sina og aðrir tveir voru stöðvaðir vegna gruns um að þeir væru undir áhrifum fíkniefna við aksturinn.
17 stór ökutæki voru tekin til sérstakrar skoðunar s.k. „vegaskoðun umferðareftirlitsmanna“ af þessum tækjum var eitt boðað til frekari skoðunar á skoðunarstöð vegna athugasemdar við ökurita þess.
Þann 23. júní varð harður árekstur tveggja bifreiða sem ekið var í gagnstæðar áttir á Efri Grafningsvegi Ökumenn beggja bifreiða slasaðir og fluttir á sjúkrahús til aðhlynningar á sjúkrahús í Fossvogi.
Þann 24. júní um kl. 15:00 varð harður árekstur þar sem bifreið var ekið af Eyrarbakkavegi í veg fyrir bifreið sem ekið var um Þorlákshafnarveg. Tvennt var í annarri bifreiðinni og reyndust meiðsl þeirra minniháttar en ökumaður einn í hinni og hann fluttur á sjúkrahús með töluverða áverka en þó ekki í lífshættu.
Á sama tíma varið barn á hlaupahjóli fyrir bifreið á íbúðargötu á Selfossi og var flutt til aðhlynningar á sjúkrahús. Meiðsl ekki alvarleg.
Þriðja slysið var tilkynnt á þessum sama tíma en ökumaður bifreiðar hafði samband við lögreglu og kvaðst hafa orðið fyrir því að aka á barn á reiðhjóli. Barnið hljóp af vettvangi en fljótlega fengust upplýsingar um það og að móðir þess hafi farið með það til skoðunar á heilsugæslu. Reynist aðeins skrámað og marið en ekki alvarlega slasað.
Þann 26. júní var lögregla kölluð til eftir að bifreið var ekið á verslun í Vík og braut þar gler í glugga. Ekki slys á fólki.
Þann 27. júní var bifreið ekið út af Þrengslavegi. Ökumaður einn í bifreiðinni og hann fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík. Hann er grunaður um ölvun við akstur í umrætt sinn.