5 Júlí 2021 14:21
Nú er komið að ferðasumrinu mikla og ljóst á umferðartölum að landinn er úti að njóta veðurblíðunnar. Á Suðurlandi var mikil umferð alla síðustu viku og ekki síst um helgina. Tjaldstæði voru meira og minna fullsetin og í flestum tilfellum fór þar allt vel fram. Skólafélag Menntaskólans á Laugavatni var með sína árlegu útilegu á tjaldsvæðinu við Faxa s.l. föstudagskvöld þar sem gæsla var til fyrirmyndar og ekki vitað annað en að skemmtunin hafi farið hið besta fram.
Annað skólafélag reyndist hafa boðað til útilegu í Þrastarlundi án þess að til þess væru nokkur leyfi. Lögregla var kölluð þar til þegar komið var fram á aðfaranótt sunnudags. Þá var skemmtun þeirra algerlega komin úr böndunum. Lítil ef einhver gæsla og hinir ýmsu aðilar búnir að gera sig heimakomna þar án þess að vera sérstaklega boðið. Um tíma var öll vaktin á Selfossi bundin yfir þessari skemmtun en skipuleggjendur skemmtunarinnar gerðu sitt besta til að koma skikki á sitt fólk en á endanum voru flestir tjaldgestir flúnir undan leiðindum tiltölulega fámenns hóps gesta á svæðinu. Einhverjar líkamsmeiðingar urðu og mál til rannsóknar vegna þess. Einn gestanna gisti fangageymslur fram til morguns en hann reyndist stjórnlaus á vettvangi.
Í liðinni viku voru 71 ökumenn kærðir fyrir að aka of hratt. Hafnarmenn lögðust yfir umferðina í Öræfum og þar og nær Höfn voru 21 mældir á of miklum hraða. Við Vík og Kirkjubæjarklaustur voru 8 ökumenn mældir á of miklum hraða og í Rangárvallasýslu voru þeir 17. 25 voru síðan kærðir fyrir hraðakstur í Árnessýslu, flestir á Suðurlandsvegi.
Ökumaður bifreiðar sem festi bíl sinn í iðnaðarhverfi á Kirkjubæjarklaustri þann 28 júní er grunaður um að hafa verið ölvaður við akstur í umrætt sinn. Aðrir tveir ökumenn á leið sinni í Árnessýslu eru grunaðir um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna eða lyfja við akstur þegar lögregla hafði afskipti af þeim. Annar þeirra ók bifreið sinni aftan á aðra við gatnamót Suðurlandsvegar og Þrengslavegar án þess þó að einhver hafi meiðst alvarlega.
9 mál eru bókuð þar sem ekið er á sauðfé í umdæminu. Vandamál hefur verið með lausagöngu búfjár við Suðurlandsveg og neðst á Landvegi í Ásahreppi og Rangárþingi ytra og eru flest málin annarsvegar þar og hinsvegar í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Ökumaður bifjhjóls slasaðist þegar hann missti stjórn á hjóli sínu á Kjalvegi þann 1. júlí s.l. Hann talinn fótbrotinn og fluttur með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík.
Ökumaður motorkrosshjóls slasaðist við æfingar í braut við Selfoss þann 1. júlí. Fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar en ekki talinn alvarlega slasaður.
Ungir ökumenn sem voru að „spyrna“ á bifreiðastæði við Þingborg klúðruðu málum og lentu bifreiðar þeirra saman þannig að önnur þeirra valt. Hvorugur ökumaðurinn slasaður eftir en nokkuð tjón á bifreiðunum.
Lögreglumenn á Höfn höfðu afskipti af ungmennum í sundlaug staðarins eftir lokunartíma hennar þann 28. júní s.l. Höfðu prílað yfir girðingu sem umlykur svæðið.
Björgunarsveitir á svæði 3 voru kallaðar til leitar þegar mannlaus bátur fannst á reki á Álftavatni að kvöldi 30. júní. Nánari eftirgrenslan leiddi í ljós að báturinn var „ættaður“ úr Selvík en þar voru allir í skilum þannig að ákveðið var að hætta leit. Því virðist sem báturinn hafi annaðhvort verið leystur frá bóli eða losnað og rekið frá landi.
Þann 2. júlí var hafin eftirgrenslan eftir leigutaka bílaleigubifreiðar sem hálendisgæsla Landsbjargar tilkynnti um þar sem honum hafði verið lagt í vegkanti við Landmannalaugar og staðið þar í a.m.k. 2 sólarhringa. Í ljós kom að ferðamaðurinn var kominn í Húsadal og í góðu lagi með hann.