1 Nóvember 2016 13:38
Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu og engin teljandi mál sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar gekk þokklega fyrir sig, fyrir utan eina líkamsárás sem átti sér stað um helgina. Eitthvað var þó um ölvun um helgina eins og fylgir skemmtunum.
Ein líkamsárás var kærð eftir skemmtanahald helgarinnar en þarna var um að ræða, að því er virðist, hópslagsmál sem enduðu með því að tveir þurftu að leita sér lækninga. Óljóst er um atvik en málið er í rannsókn.
Að kvöldi 28. október sl. var lögreglu tilkynnt um eld um borð í Sighvati Bjarnasyni VE og var slökkvilið Vestmannaeyja kallað út vegna atviksins. Í ljós kom að múffa, sem er utan um olíufýr, ofhitnaði þannig að rjúka fór úr henni. Litlar sem engar skemmdir urðu á skipinu.
Tvær kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum en um var að ræða vanrækslu á notkun öryggisbelta við akstur.