16 Ágúst 2016 16:17
Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram en eitthvað var þó um pústra við öldurhús bæjarins, án þess þó að kærur liggi fyrir.
Að kvöldi 8. ágúst sl. veittu lögreglumenn nokkrum ungum drengjum athygli þar sem þeir voru að eiga við mótorcrosshjól á malavellinum við Löngulág. Við nánari athugun kom í ljós að einn drengjanna hafði tekið hjólið ófrjálsri hendi úr bílskúr þar skammt frá. Engar skemmdir voru á hjólinu og var því komið til eiganda.
Um miðnætti þann 11. ágúst sl. var lögreglu tilkynnt um eld að Áshamri 71 og var slökkviliðið jafnframt kallað út. Í ljós kom að kviknað hafði í út frá uppþvottavél í eldhúsi. Litlar sem engar skemmdir voru af völdum elds en töluverðar reykskemmdir voru í íbúðinni og sá slökkviliðið um að reykræsta íbúðina. Engin meiðsl urðu á fólki.