23 Maí 2016 15:01
Síðastliðin vika var tiltölulega róleg hjá lögreglu en þó er alltaf eitthvað sem kemur upp.
Tilkynnt var um eitt umferðaróhapp en það var minniháttar og engin meiðsli á fólki. Einn ökumaður var sektaður fyrir að tala í farsíma við aksturinn án þess að nota handfrjálsan búnað og annar ökumaður var sektaður fyrir að vera ekki með öryggisbeltið spennt Þá fékk einn ökumaður sekt fyrir að leggja bifreið sinni ólöglega.
Lögreglu barst ein kæra vegna líkamsárásar og þá kærði einn hótanir í sinn garð.
Tilkynnt var um hrun úr Heimakletti og við frekari skoðun á því reyndist hafa hrunið úr Dufþekju og olli það engri hættu eða tjóni. Tveir ungir drengir voru sóttir í Klettsvík en þeir höfðu róið þangað á lítilli gúmmítuðru og kváðust hafa ætlað að fara og tína egg. Voru þeir fluttir til baka í bát Björgunarfélagsins.