8 Febrúar 2016 16:18
Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku án þess að um alvarlega mál hafi verið að ræða. Helgin gekk að mestu áfallalaust fyrir utan einn einstakling sem gisti fangageymslu lögreglu.
Þann 3. febrúar sl. var lögreglu tilkynnt um dreng á léttu bifhjóli þar sem hann var að aka eftir Strandvegi v/Krónuna. Aksturinn var stöðvaður skömmu síðar af lögreglu og viðurkenndi drengurninn að hafa tekið hjólið ófrjálsri hendi. Máli telst upplýst.
Þann 6. febrúar sl. var tilkynnt um þjófnað á áfengi frá 900 Grillhús og beindust böndin fljótlega að ákveðnum aðila. Viðurkenndi hann að hafa tekið áfengið og skilaði því til réttra eigenda í viðurvist lögreglu. Málið telst upplýst.
Einn fékk að gista fangageymslu lögreglu um liðna helgi en sá hafði verið til óþurftar á einu af veitingahúsum bæjarins.
Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í vikunni og má rekja þau til hálku sem er búin að vera á götum bæjarins að undanförnu. Engin slys urðu á fólki í þessum óhöppum, en lítisháttar tjón varð á ökutækjum.
Alls liggja fyrir 12 kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna. Í einu tilviki var ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Þá liggja fyrir 10 kærur vegna ólöglegrar lagninga ökutækja og ein kæra vegna aksturs án tilskilinna réttinda.