21 Apríl 2015 15:17
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í vikunni sem leið m.a. vegna fíkniefnamála, þjófnaða og fl. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var þó um pústra án þess þó kærur hafi verið lagðar fram.
Tveir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku og var í öðru tilvikinu um að ræða þjófnað úr trillu sem var í slipp á Skipasandi. Tekin var fartölva en síðar kom í ljós að drengur á fjórtánda ári var þarna að verki og hefur tölvunni verið komið til eiganda. Í hinu tilvikinu var um að ræða þjófnaði á reiðhjóli sem var við Eimsipshöllina. Er þarna um að ræða fjólublátt kvenmannsreiðhjól og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um hvar hjólið er beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni og hefur þegar verið greint frá öðru málinu er varðaði sölu og dreifingu á fíkniefnum í Eyjum á undanförnum mánuðum. í hinu tilvikinu var maður stöðvaður af lögreglu vegna gruns um að hafa fíkniefni í fórum sínum og reyndist sá grunur á rökum reistur en um þrjú grömm af maríhúana fundust við leit lögreglu. Maðurinn viðurkenndi að eiga efnin og telst máið að mestu upplýst. Alls hafa níu fíkniefnamál komið upp það sem af er árinu á móti fórum í fyrra á sama tíma.
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið en þarna hafði bifreið sem ekið var afturábak á Heiðarvegi lent á kyrrstæðri bifreið. Ekki var um mikið tjón að ræða og engin slys á fólki.
Alls liggja fyrir 6 kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og er í fimm tilvikum um að ræða ólöglega lagningu ökutækis og í einu tilviki vanrækslu á að hafa öryggisbelti spennt í akstri.