4 September 2019 09:24
Þrátt fyrir lokanir gatna vegna heimsóknar varaforseta Bandaríkjanna er rétt að undirstrika að fólk kemst leiðar sinnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, en margir hafa haft samband við lögreglu og lýst yfir áhyggjum sínum vegna þessa. Hjá einhverjum gæti það tekið lengri tíma en venjulega og enn fremur kunna sumir að þurfa að leggja lengra frá vinnustaðnum sínum en þeir gera venjulega. Við ítrekum upplýsingar um lokun Sæbrautar, á milli Snorrabrautar og Kringlumýrarbrautar, frá því um hádegisbil og þar til síðdegis. Sömuleiðis er lokað fyrir umferð um hluta Borgartúns eins og áður hefur komið fram. Sama gildir um umferð í Katrínartúni, á milli Borgartúns og Sæbrautar, og því er ekki hægt að aka frá Guðrúnartúni inn á Katrínartún. Á eftir verður lokað fyrir umferð í Borgartúni frá Þórunnartúni að Nóatúni, en auk þessa má búast við tímabundnum umferðartöfum annars staðar í umdæminu.
Vegfarendur eru beðnir um að sýna þolinmæði og tillitssemi.