29 Mars 2008 12:00
Föstudaginn 28. mars s.l. komu 40 nemendur Háskólans í Reykjavík í heimsókn í Lögregluskóla ríkisins. Nemendurnir, sem allir stunda lögfræðinám, komu í fylgd refsiréttarkennara síns, Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, en hún kenndi áður fyrr refsirétt við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins. Þess má geta að í hópnum var Þröstur Þór Guðmundsson, hann brautskráðist sem lögreglumaður frá Lögregluskóla ríkisins árið 2003 en hefur nú snúið sér að lögfræðinámi.
Yfirstjórn Lögregluskóla ríkisins kynnti uppbyggingu, starfsemi og framtíð skólans fyrir nemendum Háskólans í Reykjavík og síðan voru almennar umræður sem hluti nemenda þriðju annar grunnnámsdeildar Lögregluskóla ríkisins tók þátt í. M.a. var rætt um tilhögun grunnnáms við Lögregluskóla ríkisins, um framkvæmd lögreglustarfa, mætingu lögreglumanna fyrir dómi, ofbeldi gagnvart lögreglumönnum og um niðurstöður tiltekinna dóma.
Heimsóknin tókst mjög vel í alla staði og er ánægjulegt til þess að vita að gott samstarf sé með þessum tveimur skólum, Háskólanum í Reykjavík og Lögregluskóla ríkisins.