8 Janúar 2009 12:00
Lögreglan á Vestfjörðum lagði hald á mun meira magn fíkniefna á nýliðnu ári samanborið við s.l. fimm ár. Eins og meðfylgjandi tafla sýnir lagði lögreglan hald á rúmlega 800 grömm af fíkniefnum, en þar var aðallega um að ræða kannabisefni. Einnig var lagt hald á E-töflur (Ecstasy), amfetamín og lítilræði af kókaíni og ofskynjunarefnum. Þess ber að geta að hér eru ekki taldar með haldlagningar lyfja svo sem stera og þ.h.
Til samanburðar hafa haldlagningar í umdæminu s.l. fimm ár numið um 220 grömmum að meðaltali á ári.
Lögreglan á Vestfjörðum hvetur almenning til að vera vel á varðbergi og veita lögreglunni allar upplýsingar um fíkniefnameðhöndlun, því ekkert verður gefið eftir gagnvart fíkniefnadreifingu í umdæminu. Þeir sem hafa slíkar upplýsingar eru beðnir um að hafa samband í síma lögreglunnar á Vestfjörðum sem er 450 3730 eða símsvara lögreglunnar og tollgæslunnar á landsvísu 800 5005. Nafnleynd er heitið.