24 Október 2024 11:48
Dagana 28. – 31. október verður þing Norðurlandaráðs 2024 haldið í Reykjavík.
Þingið fer fram á Alþingi og í Ráðhúsi Reykjavíkur undir yfirskriftinni „Friður og öryggi á norðurslóðum“.
Þingið er stærsti norræni stjórnmálaviðburðurinn á árinu en þar koma saman 87 þingmenn Norðurlandaráðs, forsætisráðherrar, utanríkisráðherrar, samstarfsráðherrar Norðurlanda og ýmsir aðrir ráðherrar frá öllum Norðurlöndunum. Að auki kemur fjöldi gesta frá löndum utan Norðurlanda og verða gestir þingsins í heild sinni rúmlega 600. Nánari upplýsingar um þingið má finna hér: Þing Norðurlandaráðs 2024 – Friður og öryggi á norðurslóðum | Norrænt samstarf
Íslenska ríkið hefur ákveðnum skuldbindingum að gegna þegar tekið er á móti þjóðarleiðtogum erlendra ríkja. Öryggi þjóðarleiðtoga erlendra ríkja sem hingað koma er á ábyrgð íslenska ríkisins.
Götulokanir verða í miðborg Reykjavíkur og mikil öryggisgæsla í og við lokaða svæðið á meðan þingið stendur yfir. Lögregla mun sinna öryggisgæslu og verða þeir lögreglumenn sem koma að henni vopnaðir við störf sín.
Svör við ýmsum spurningum um verkefni lögreglu í tengslum við þingið, götulokanir og aðrar takmarkanir má finna hér: Norðurlandaráðsþing í Reykjavík | Ísland.is
Í miðborg Reykjavíkur verður Vonarstræti lokað milli Lækjargötu og Suðurgötu. Templarasund og Kirkjustræti frá Pósthússtræti verður einnig lokað, auk þess sem Tjarnargötu á milli Vonarstrætis og Kirkjustrætis verður lokað.
Bílastæðahúsi við Ráðhús Reykjavíkur verður lokað fyrir allri umferð en Tjarnargata frá Skothúsvegi verður opin að Tjarnargötu 14, þar sem tvístefnuakstur verður um opna hlutann á Tjarnargötu. Bílastæðahúsinu verður lokað mánudaginn 28. október kl. 8:00 og götulokanir taka gildi á sama tíma. Lokunum verður aflétt á miðvikudeginum 30. október kl. 16:00.
Þá verður Ráðhús Reykjavíkur lokað almenningi frá laugardeginum 26. október til og með fimmtudeginum 31. október.