5 Október 2006 12:00
Brátt mun veturinn ganga í garð og þá þurfa ökumenn að vera viðbúnir. Í höfuðborginni hafa ökumenn þegar þurft að skafa af rúðum bíla sinna. Það er einmitt lykilatriði að ökumenn hafi gott útsýni og ekkert má birgja sýn þeirra. Mjög góð regla er að gefa sér tíma til að hreinsa rúðurnar. Það getur margborgað sig. Mikilvægt er hreinsa/skafa allar rúðurnar en ekki bara framrúðuna eða hluta hennar. Þetta er líka góður tími til að skipta um þurrkublöð eða hreinsa þau sem fyrir eru. Þá er einnig ákjósanlegt að tjöruhreinsa dekkin.
Í reglugerð um gerð og búnað ökutækja segir að nota megi neglda hjólbarða frá 1. nóvember til 15. apríl. Frá þessu má víkja ef akstursaðstæður gefa tilefni til. Veður geta verið válynd og snjór og ísing kann að vera á vegum utan fyrrgreinds tímabils. Ekki síst ef farið er um þjóðvegi landsins eða yfir heiðar. Misjafnar skoðanir eru um ágæti nagladekkja eða nauðsyn þeirra og margir kjósa að nota svokölluð heilsársdekk. Í öllum tilfellum er hins vegar best að dekkin séu ekki gömul og slitin.
Sem fyrr mun lögreglan í Reykjavík fylgjast gaumgæfilega með búnaði ökutækja og hafa afskipti af ökumönnum þegar þurfa þykir. Það á ekki síst við um þá sem hunsa að skafa af rúðum bíla sinna. Gott útsýni ökumanna er lykilatriði eins og fyrr segir. Með því er dregið úr slysahættu og það er sameiginlegt markmið okkar allra.