23 Október 2007 12:00
Líkt og annars staðar á höfuðborgarsvæðinu eru veggjakrot og umferðarmál fólki í Grafarvogi og á Kjalarnesi ofarlega í huga. Þetta kom glögglega fram á sameiginlegum fundi í Miðgarði á mánudag, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti með fulltrúum ýmissa aðila í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Einar Ásbjörnsson aðalvarðstjóri fór yfir stöðu mála í Grafarvogi og Guðrún Jack rannsóknarlögreglumaður rakti með sama hætti gang mála á Kjalarnesi en á báðum stöðum er almennt gott ástand. Kristján Ólafur Guðnason aðstoðaryfirlögregluþjónn skýrði frá starfi umferðardeildar og gat um ýmiss verkefni hennar, m.a. hraðamælingar í Grafarvogi. Stefán Eiríksson lögreglustjóri var að sjálfsögðu einnig mættur í Miðgarð og upplýst margt um störf lögreglunnar og svaraði fyrirspurnum fundargestum sem voru um þrjátíu talsins.
Í máli lögreglustjóra kom fram að hann vinnur að því með sínu fólki að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dveljast í umdæminu. Því verki miðar mjög vel en meðal þess sem lögreglan leggur áherslu á er að efla hverfa- og grenndarlöggæslu, þ.m.t. sýnileika. Þá sagðist Stefán Eiríksson tilbúinn til þess að hitta íbúana á opnum fundi eftir áramót og heyra sjónarmið þeirra og fékk sú hugmynd góðan hljómgrunn.
Í máli Guðrúnar Jack kom fram að staða unglingamála á Kjalarnesi væri mjög góð og jafnvel betri en oft áður. Því megi m.a. þakka sameiginlegu átaki lögreglu, forelda og fleiri aðila. Í Grafarvogi er starfræktur svokallaður Hringur sem gengur út á sáttamiðlun. Það verkefni hefur tekist einstaklega vel og því verður auðvitað haldið áfram. Fleira var vitaskuld rætt og má þar nefna vilja fundarmanna til að halda áfram úti svonefndum athvarfsvöktum.
Guðrún Jack, Ásdís Haraldsdóttir og Einar Ásbjörnsson.
Um þrjátíu manns voru á fundinum í Miðgarði og hér sést hluti þeirra.