27 Nóvember 2006 12:00
Aðfaranótt sunnudags var lögreglan í Reykjavík kölluð að hóteli í borginni. Þar hafði karlmaður gengið berserksgang og m.a. kastað til húsgögnum og ráðist inn á herbergi sofandi hótelgesta. Maðurinn sinnti hvorki tilmælum gesta né starfsmanna en sjálfur var hann gestur á hótelinu.
Lögreglan handtók manninn sem brást illa við og kom til nokkurra átaka. Hann streittist á móti en lögreglan beitti viðurkenndum handtökuaðferðum og lögreglutökum. Maðurinn lét áfram ófriðlega á leið á lögreglustöð en stuttu áður en þangað var komið lenti maðurinn í hjartastoppi og hætti að anda. Kallað var á sjúkralið og tókst að endurlífga manninn. Hann var fluttur á sjúkrahús og er þar enn en honum er haldið sofandi.
Í herbergi mannsins á hótelinu fundust fíkniefni. Talið er að hann hafi verið undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Endanleg staðfesting á því liggur ekki fyrir.