26 Júní 2008 12:00
Það er árviss viðburður að lögreglu berist tilkynningar um garðslátt á ókristilegum tíma. Þetta sumar er engin undantekning í þeim efnum en síðustu nótt hringdi íbúi í Mosfellsbæ og kvartaði undan hávaða frá sláttuvél. Þegar lögreglumenn komu á staðinn var hins vegar ekkert að heyra. Sá sem handlék sláttuvélina virðist hafa séð að sér og því verða engin eftirmál. Ekki er annað vitað en tilkynnandi hafi síðan náð að festa svefn og hvílast það sem eftir lifði nætur.
Í ljósi ofangreinds máls er rétt að vekja sérstaka athygli á 4. gr. lögreglusamþykktar. Í henni segir m.a. að bannað er að hafast nokkuð að, sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu biður fólk að hafa það ávallt hugfast.