1 Ágúst 2015 13:45
Mjög rólegt var hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum sl. nótt og engin alvarleg mál komu upp á hátíðarsvæðinu í Herjólfsdal. Veðrið lék við gesti þjóðhátíðar, þurrt og enginn vindur. Aðeins einn gisti þó fangageymslu og var það vegna ölvunarástands.
Á daglegum samráðsfundi Lögreglustjóra með fulltrúum viðbragðsaðila kom fram að fyrsta nóttin hafi verið einstaklega róleg.
Á þriðjatug fíkniefnamála voru kærð í gær og sl. nótt og eru þau þá orðin 30 talsins frá því að lögreglan hóf sitt aukna átak. Mest hefur verið lagt hald á maríhúana, amfetamín og kókaín. Sex lögreglumenn sinna þessu engöngu með fíkniefnahundana, Vinkill, Þoku og Lunu sér til aðstoðar.
Í gær var sagt frá máli þar sem bifreið hafi verið stolið og ekki væri vitað hver hafi verið þar að verki. Við rannsókn á málinu var aðili handtekinn síðdegi í gær og viðurkenndi hann að hafa stolið bifreiðinni og einnig viðurkenndi hann að hafa verið undir áhrifum við aksturinn.
Í dag er búist við að þjóðhátíðargestum muni eitthvað fjölga en töluvert er bókað með Herjólfi og með flugi. Ljóst er þó að þessi hátíð er töluvert fámennari en hátíðin í fyrra enda var þá um met fjölda að ræða.