15 Desember 2004 12:00
Ríkislögreglustjóri hélt árlegan fund sinn með öllum lögreglustjórum á landinu fyrir skömmu þar sem fjallað var um skipulagða glæpastarfsemi. Í framhaldi þess var haldinn fundur um sama efni fyrir aðra yfirmenn í lögreglu og tollgæslu. Á fundunum var gerð grein fyrir skipan ríkislögreglustjóra á stýrihópi fyrr á þessu ári, sem skyldi leita leiða til þess að koma í veg fyrir að alþjóðleg glæpasamtök nái fótfestu hér á landi.
Stýrihópurinn skilaði skýrslu sinni í byrjun júní en þar er meðal annars fjallað um skipulagða glæpastarfsemi í Evrópu auk þess sem gerð er tillaga um lagabreytingar og önnur úrræði sem styrkt geta og eflt baráttu yfirvalda gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Ríkislögreglustjóri kynnti Birni Bjarnasyni, dómsmálaráðherra, niðurstöður skýrslunnar. Ráðherrann hefur ákveðið að taka þessar tillögur til ítarlegrar athugunar og hefur þegar falið ríkislögreglustjóra að hrinda í framkvæmd þeim tillögum sem snúa að embætti hans, svo sem áframhaldandi starfi stýrihópsins, mótun heildarstefnu á þessu sviði og gerð úttekta. Einnig eflingu innra samstarfs lögreglu, auk samvinnu við sveitarfélög og stofnanir.
Á fyrrnefndum fundum ríkislögreglustjóra var farið í gegnum þessi atriði og jafnframt kynnt sú mikla vinna sem lagt hefur verið í innan embættisins um málefnið. Auk þess sem nefnt er hér að ofan, má nefna stöðumat á félagslegum þáttum sem eru forsenda skipulagðrar glæpastarfsemi og tillögugerð um varnir og viðbrögð við henni. Ennfremur var kynnt tækni sem byggir á sérstökum kortagrunni og auðveldar lögreglu að fá yfirsýn yfir afbrot og vinna markvisst að fækkun þeirra.
Júlíus Sigurjónsson tók þessar myndir á fundunum.