8 Janúar 2008 12:00
Tuttugu og þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Flest voru þau minniháttar en í tveimur tilfellum var um afstungu að ræða. Nokkrir voru teknir fyrir hraðakstur en grófasta brotið framdi karl á þrítugsaldri en bíll hans mældist á 137 km hraða á Reykjanesbraut nærri Vífilsstaðavegi en þar er hámarkshraði 70.
Karl um fertugt var tekinn fyrir ölvunarakstur í Grafarholti og í Breiðholti stöðvaði lögreglan för liðlega tvítugs pilts sem var í annarlegu ástandi undir stýri en sá síðartaldi hafði jafnframt þegar verið sviptur ökuleyfi. Fleiri réttindalausir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni í gær en þrítugur karl sem ók vörubíl í Hvalfirði gat ekki framvísað ökuskírteini þegar eftir því var leitað. Hann hafði þegar verið sviptur ökuleyfi og sama átti við um karl á þrítugsaldri sem var stöðvaður í Hamrahlíð en sá hefur ítrekað ekið sviptur. Þá var 15 ára piltur á skellinöðru stöðvaður í Kópavogi en hann var réttindalaus. Sá var heldur ekki með hjálm og það sama átti við um farþega hans sem er 14 ára.