2 Ágúst 2003 12:00
2. ágúst 2003.
Þrátt fyrir að veður hafi ekki verið eins gott og vonast var til, á fyrsta degi unglingalandsmóts UMFÍ, hefur mótið tekist vel og farið vel fram. Er það mótshöldurum og gestum þeirra til sóma. Veðurspáin er góð fyrir daginn í dag og enn betri næstu daga og því von til hægt verði að geyma úlpurnar heima.
Rétt fyrir klukkan 19:00 í gær lagði lögreglan hald á 47 bjórflöskur, og fjórar flöskur af sterku áfengi, sem 6 ungmenni voru með í fórum sínum. Þessi ungmenni voru ekki keppendur á mótinu, en sögðust vera að koma hingað til að horfa á keppnina.
Kl. 22:15 í gærkvöldi stöðvaði lögreglan á Ísafirði bifreið, sem í voru tvö ungmenni inni í Ísafjarðardjúpi. Ungmennin voru að koma frá Reykjavík og var ferðinni heitið til Bolungarvíkur. Við leit á öðru þeirra fannst lítilræði af kannabisefnum og í bifreiðinni fannst ætlað ólöglegt hormónalyf, stungulyf.
Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum stendur yfir sameiginlegt eftirlit lögregluliðanna á Vestfjörðum. Lögreglumenn eru sérstaklega vakandi með áfengi og hugsanlegri meðferð ungmenna á áfengi. Einnig er fylgst grannt með umferðarhraða, ástandi ökumanna og hugsanlegri notkun fíkniefna, svo eitt sé nefnt.
Lögreglan hafði afskipti af nokkrum einstaklingum sem voru með áfengi í fórum sínum á kvöldvökunni og tónleikunum sem haldnir voru á vegum landsmóts UMFÍ, á túninu við Gamla sjúkrahúsið á Ísafirði. Flest þessi ungmenni voru á aldrinum 18 til 21 árs. Áfenginu var hellt niður eða lagt hald á það. Meðferð áfengis og annarra vímugjafa er stranglega bönnuð á alls staðar á mótssvæðinu. Lögreglan mun hafa strangt eftirlit á svæðinu.