15 Febrúar 2012 12:00
Þegar kemur að flutningi á farmi er að ýmsu að hyggja en aðalatriðið er auðvitað að farm skal flytja þannig, að eigi hafi í för með sér hættu fyrir menn eða valdi munatjóni. Um þetta er fjallað í 73. gr. umferðarlaga og enn frekar í reglugerð um hleðslu, frágang og merkingu farms. Lögreglan fylgist með því að þessi og raunar fleiri atriði séu í lagi, t.d. flutningur eldsneytis og hættulegra efna. Í því sambandi er rétt að minna sérstaklega á flutningstakmarkanir sem eiga við um Hvalfjarðargöng en eldsneytisflutningar um þau eru bannaðir mánudaga til fimmtudaga frá kl. 15-20. Flutningur á eldfimu gasi í tönkum og sprengiefni í yfir 50 kg förmum er hins vegar ávallt bannaður. Um flutning á hættulegum farmi, eins og hann er skilgreindur í 4. gr. reglugerðar nr. 984/2000, gilda sérstakar reglur og eru flutningsaðilar hvattir til að kynna sér þær vandlega.
Þess má geta að lögreglan hefur fylgst vel með flutningi farms undanfarna daga og hefur stöðvað allnokkra ökumenn vegna þessa. Hinir sömu fylgdu reglum í hvívetna og er það góðs viti.