13 Maí 2024 15:02
Undanfarnar vikur hefur verið í gangi undirbúningur, fræðsla vegna flugslysaæfingar sem haldin var laugardaginn 11. maí á Hornafjarðarflugvelli. Halda þarf reglulega flugslysaæfingar á öllum áætlunarflugvöllum á Íslandi. Það eru um fjögur ár frá því síðast var slík æfing haldin á Hornafirði. Það er Isavia sem heldur utan um undirbúning og skipulag æfinganna í samvinnu við almannavarnir og lögreglustjórann á Suðurlandi. Mikill fjöldi fólks kemur að undirbúningi fyrir æfingar sem þessar og mikið lagt í að gera þær sem raunverulegastar. Á æfingunni um helgina voru um 20 leikarar í hlutverkum farþegar/ sjúklinga og um 120 viðbragðsaðilar tóku þátt í æfingunni. Sviðsmynd æfingarinnar var að tvær flugvélar rákust saman á flugvellinum og enduðu út fyrir annan brautarendann.
Auk viðbragðsaðila á svæðinu var aðgerðarstjórn virkjuð á Selfossi sem og samhæfingarstöðin í Skógarhlíð.
Æfingin gekk mjög vel og var rýnd í lokin, punktar sem þar komu fram verða nýttir við endurskoðun á viðbragðsáætlun vegna flugslyss við Hornafjarðarflugvöll. Æfingar sem þessar eru mikilvægar til að samræma viðbrögð aðila og láta reyna á virkni viðbragðsáætlana.
Samhliða þessari æfingu var í gangi hópslysaæfinga á Norðurlandi Vestra og því einnig verið að æfa virkni samhæfingarstöðvar í Skógarhlíð við að vinna fleiri en eitt verkefni í einu.