17 Nóvember 2006 12:00
Tuttugu og fjögur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík í gær, flest minniháttar. Að venju var myndavélabíll lögreglunnar á ferðinni um borgina en m.a. var fylgst með umferð við grunnskólana. Við Melaskóla voru mynduð brot 21 ökumanns en meðalhraði þeirra var rúmlega 46 km/klst. Sá sem hraðast ók mældist á 50 km hraða. Við Laugarnesskóla voru mynduð brot 8 ökumanna en meðalhraði þeirra var tæplega 48 km/klst. Og í dag voru mynduð brot 13 ökumanna í Heiðargerði en meðalhraði þeirra var tæplega 50 km/klst. Sá sem ók þar hraðast mældist á 68 km hraða. Á öllum þessum stöðum er leyfilegur hámarkshraði 30 km/klst.
Á síðasta sólarhring voru fjórir teknir fyrir ölvunarakstur í umdæminu og einn fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna. Þá stöðvaði lögreglan för tveggja ökumanna sem höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi. Öðrum þeirra veitti lögreglan eftirför en sá sinnti ekki stöðvunarmerkjum og ók m.a. gegn rauðu ljósi. Að lokum nam ökumaðurinn staðar, yfirgaf bílinn og reyndi að forða sér á hlaupum. Hann komst þó ekki langt en til hans náðist í nálægum bakgarði.