24 Ágúst 2014 12:00
Þúsundir manna voru á menningarnótt Reykjavíkur í miðborginni í gær og nótt, en talið er að gestir hafi verið um 100 þúsund þegar mest var. Lögreglan hafði mikinn viðbúnað og að venju hafði hún í nógu að snúast en útköllum fjölgaði eftir því sem á leið. Starfsmenn umferðardeildar höfðu t.d. í mörg horn að líta en tólf umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar. Að venju bar nokkuð á að ökutækjum væri illa og/eða ólöglega lagt í og við miðborgina, en höfð voru afskipti af um 1.000 ökutækjum vegna þessa. Að öllu samanlögðu verður þó ekki annað sagt en að umferðin hafi gengið bara bærilega á menningarnótt, ekki síst þegar kom að því að greiða fyrir umferð úr miðborginni að lokinni flugeldasýningu. Að venju voru höfð afskipti af fólki vegna ölvunar og fíkniefnaneyslu, en áfengi var tekið unglingum og því hellt niður. Er leið á nóttina fóru að berast nokkrar kvartanir vegna hávaða í heimahúsum, en slíkt er viðbúið um helgar og var ekki meira en við mátti búast. Fangageymslur lögreglustöðvarinnar voru fullnýttar í nótt, en ástand þeirra sem þar gistu var heldur bágborið eins og gefur að skilja.
Eins og venjulega naut lögreglan aðstoðar ýmissa aðila á menningarnótt, m.a. björgunarsveitarmanna. Samstarfið gekk mjög vel og eru hlutaðeigandi aðilum færðar kærar þakkir fyrir aðstoðina. Á heildina litið lítur lögreglan svo á að menningarnótt hafi farið ágætlega fram. Líkt og áður notaði lögreglan fésbókarsíðu embættisins til að miðla ýmsum upplýsingum á menningarnótt, sérstaklega þó eru sneru að umferðarmálum, og var því vel tekið.