30 Júní 2014 12:00
Lögreglan sendi í síðasta mánuði upplýsingar um reiðhjólaslys árið 2013, sem samkvæmt tölum Samgöngustofu voru 20% af öllum skráðum umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið var hinsvegar 6,5% árið 2008 og hefur því hækkað umtalsvert.
Bráðabirgðatölur lögreglu það sem af er þessu ári, frá 1. janúar til 25. júní, sýna að hlutfallið er komið í 24%. Séu tölur hinsvegar skoðaðar frá fyrsta skráða reiðhjólaslysinu á þessu ári sem átti sér stað um miðjan mars og sýnir nokk hvenær reiðhjól voru tekin til kostanna á höfuðborgarsvæðinu á árinu og til 25. júní, þá er hlutfallið 36%.
Við greiningu á slysunum sést að þau verða af ýmsum orsökum, svo sem við fall á götu eða stíg, við það að lenda á gangandi vegfarenda eða öðrum hjólreiðamanni og við það að lenda í árekstri við bifreið.
Lögreglan hvetur af þessum sökum vegfarendur enn og aftur, hvort sem það eru hjólreiðamenn, akandi eða gangandi, til að gæta að sér hvar sem leiðir þeirra skarast og sýna hver öðrum tillitssemi og skilning með það að markmiði koma í veg fyrir umferðaróhöpp og slys.