2 Febrúar 2021 10:52
Karlmaður um þrítugt var um helgina í Héraðsdómi Reykjavíkur úrskurðaður í síbrotagæslu til 26. febrúar að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ætluðum fjársvikum mannsins. Um er að ræða allnokkur mál, en maðurinn er grunaður um að hafa selt varning á fésbókinni, undir ýmsum nöfnum, án þess þó að hafa komið honum til skila.
Því miður er ofangreint ekki einsdæmi og því er fólk minnt á að sýna árvekni eins og frekast er unnt þegar keyptir eru hlutir á sölusíðum á netinu, t.d. að seljandi sýni kvittun fyrir vörunni. Þá gerist það einnig of oft að þýfi finnst í fórum kaupenda sem bera við að þeir hafi ekki vitað að varan var stolin, vita ekki nafn seljanda, heimilisfang eða annað sem að gagni má koma við rannsókn máls.