16 Janúar 2012 12:00
Firðskeyti er orð sem kemur sjaldan við sögu hjá lögreglu en þó gerðist það í síðustu viku. Þannig var að tveir gámar féllu af flutningaskipi og rak þá á fjöru í Kjósarhreppi. Eigandi jarðarinnar lét lögreglu vita í samæri við lög um skipströnd og vogrek frá árinu 1926. Lögreglustjóri gerði svo ráðherra grein fyrir málinu, og hið sama stóð til að gera gagnvart eigendum gámanna, í samræmi við sömu lög eða eins og segir í I. kafla um skipströnd, 1. gr.;
Hver, sem þess verður var, að hafskip sé í hættu statt við land eða strandað, eða að góss úr því reki á land, er skyldur að gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að bjarga mönnum og góssi, enda skal hann tafarlaust skýra hreppstjóra, eða lögreglustjóra, ef auðveldara er að ná til hans, frá atburðum með firðskeyti eða símtali, ef þess er kostur, en ella með skyndiboða. Hreppstjóri skal með sama hætti skýra lögreglustjóra frá skipreika. Lögreglustjóri skýrir síðan dómsmálaráðherra, svo og eigendum og vátryggjendum skips og farms eða umboðsmönnum þeirra, ef vitað er, hverjir eru, frá því, hvernig komið er, með firðskeyti, ef þess er kostur, en ella með næstu póstferð. Dómsmálaráðuneytið skal svo, jafnskjótt sem unnt er, tilkynna skipreikann fyrirsvarsmanni þess ríkis, sem skip er frá.
Reyndar kaus lögreglustjóri að koma tilkynningunni á framfæri með tölvupósti en slíkt þykir hefðbundið á 21. öldinni. Orðið firðskeyti hefur annars þá merkingu, eftir því sem skrifari veit best, að það stendur fyrir nokkurskonar skeyti sem sent er með hjálp síma eða telex og er skrifað út hjá móttakanda.
Að síðustu má geta þess að finnandi gámanna í Kjósarhreppi var nýbúinn að ræða það við sveitunga sinn að sennilega þyrftu þeir að útvega sér gáma í tengslum við nýtt reykhús sem þeir eru með í bígerð. Hinn sami hafði á orði að sennilega myndi nú eitthvað reka á fjörur þeirra og reyndist hann sannspár. Þrátt fyrir fundinn verða mennirnir þó að öllum líkindum að finna sér aðra gáma undir starfsemina.