26 Maí 2009 12:00
Sú breyting varð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um síðustu mánaðamót að fimm svokallaðir stöðvarstjórar tóku til starfa. Þetta eru aðstoðaryfirlögregluþjónarnir Árni Þór Sigmundsson, Árni Vigfússon, Ólafur G. Emilsson, Ómar Smári Ármannsson og Sigurbjörn Víðir Eggertsson. Þeir eru í forsvari fyrir eftirtaldar lögreglustöðvar (svæðisstöðvar).
Lögreglustöð 1 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum austan Snorrabrautar til vestan Elliðaáa. Stöðvarstjóri: Árni Vigfússon.
Lögreglustöð 2 – Flatahrauni 11, Hafnarfirði – sími 444-1140. Sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Stöðvarstjóri: Ólafur G. Emilsson.
Lögreglustöð 3 – Dalvegi 18, Kópavogi – sími 444-1130. Sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti. Stöðvarstjóri: Sigurbjörn Víðir Eggertsson.
Lögreglustöð 4 – Völuteigi 8, Mosfellsbæ – sími 444-1190. Sinnir verkefnum í Mosfellsbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Stöðvarstjóri: Árni Þór Sigmundsson.
Lögreglustöð 5 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum vestan Snorrabrautar og á Seltjarnarnesi. Stöðvarstjóri: Ómar Smári Ármannsson.
Samhliða breytingunum hefur sérstakt rannsóknarsvið tekið til starfa á öllum stöðvunum fimm. Átta rannsóknarlögreglumenn starfa á hverri stöð. Miðlæg rannsóknardeild embættisins rannsakar stærri og flóknari sakamál, með aðstoð tæknideildar þegar svo ber undir. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar jafnframt alvarleg umferðarslys í umdæminu.
Lögreglustöðvunum á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi og í Langarima í Grafarvogi hefur verið lokað. Opnuð hefur verið lögreglustöð á Fjallkonuvegi 1 í Grafarvogi en þar mun lögreglan hafa aðstöðu til 2010. Þá er áformað að opna nýja lögreglustöð á Skarhólabraut í Mosfellsbæ. Gangi það eftir verður lögreglustöðvunum á Fjallkonuvegi 1 og Völuteigi 8 í Mosfellsbæ því lokað 2010.
Sólarhringslöggæsla er á höfuðborgarsvæðinu alla daga ársins. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu ber að hringja í 112.