17 Janúar 2008 12:00
Nú á tíunda tímanum í morgun gerði lögreglan á Vestfjörðum húsleit í tveimur húsum á Þingeyri. Aðgerðin var framkvæmd að fengnum dómsúrskurði Héraðsdóms Vestfjarða og tengdist ábendingum um meint fíkniefnamisferli tveggja aðila. Við leitina fundust engin fíkniefni í öðru húsinu en í hinu fundust á sjötta tug gramma af ætluðu hassi og áhöld til fíkniefnaneyslu. Miðað við efnismagnið leikur grunur á því að ætlunin hafi verið að selja a.m.k. hluta efnisins. Málsaðilarnir tveir voru handteknir og hafa verið í haldi lögreglu í dag vegna rannsóknar málsins. Ekki liggur fyrir játning um að til hafi staðið að dreifa efnunum, en játning um neyslu liggur fyrir hjá báðum mönnunum. Þeim hefur verið sleppt lausum, enda ekki taldar rannsóknarlegar forsendur til að halda þeim lengur. Mennirnir eru báðir á fimmtugsaldri og hafa áður komið við sögu vegna fíkniefnamála.
Fyrir tilstuðlan ríkislögreglustjóraembættisins naut lögreglan á Vestfjörðum aðstoðar lögreglumanns hundadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fíkniefnaleitarhunds hans.