5 September 2008 12:00
Fíkniefni fundust við húsleitir í nokkrum íbúðum í miðborginni í gærkvöld. Um var að ræða hass, amfetamín, marijúana, e-töflur og kannabisplöntur. Einnig var lagt hald á peninga sem grunur leikur á að séu tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Höfð voru afskipti af nálægt tuttugu manns í þessum málum en í híbýlum sjö þeirra, eða á þeim sjálfum, fundust fíkniefni.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.