13 Desember 2007 12:00
Nú í morgun lagði lögreglan á Vestfjörðum, lögreglumenn frá starfsstöðinni á Hólmavík, hald á lítilræði af kannabisefnum og áhöldum sem talin eru hafa verið notuð til fíkniefnaneyslu.
Lögreglan hafði afskipti af fjórum mönnum sem voru í einni bifreið, á leið vestur Steingrímsfjarðarheiði. Lögregluna grunaði að mennirnir væru með fíkniefni og reyndist sá grunur á rökum reistur þegar leit á mönnunum og í bifreiðinni fór fram.
Mennirnir hafa verið yfirheyrðir á Hólmavík en hefur nú verið sleppt, enda telst málið upplýst.
Þessa dagana er Lögreglan á Vestfjörðum að efla almennt umferðareftirlit í öllu umdæminu. Einnig verður lögð sérstök áhersla á alla meðhöndlun fíkniefna, hugsanlegan flutning fíkniefna til umdæmisins flugleiðis, með pósti, vöruflutningum og einkabifreiðum, svo eitthvað sé nefnt. Hvatt er til þess að almenningur láti lögreglunni í té allar upplýsingar sem geta komið að gagni í baráttunni gegn fíkniefnum. Upplýsingasímanúmer lögreglunnar á Vestfjörðum er 450 3730.